Nú sér fyrir endann á framkvæmdum á Gljúfrasteini sem staðið hafa yfir allt þetta ár. Eins og fram hefur komið þurfti að bregðast við alvarlegum rakavandamálum. Viðgerðir hafa verið mjög umfangsmiklar og haft hefur verið að leiðarljósi að vanda til verka á öllum sviðum.
Þessa dagana er unnið að því að ljúka verkinu og gert er ráð fyrir að verklegum framkvæmdum ljúki fyrir áramót. Þá munu taka við þrif, uppsetning innréttinga og flutningur og uppröðun á safnkostinum. Gert er því ráð fyrir að safnið opni að nýju í mars.
Aðventuupplestrar á Gljúfrasteini, sem hafa verið fastir liðir frá opnun safnins, geta því ekki átt sér stað í ár af þessum sökum.