Degi íslenskrar tungu verður fagnað í sautjánda sinn föstudaginn 16. nóvember. Í tilefni dagsins verður ókeypis aðgangur að Gljúfrasteini.
Halldór Laxness lagði mikið upp úr orðum. Raunar má segja að hann hafi verið orðasafnari. Hann ferðaðist um landið og hitti fólk í þorpum, bæjum og torfkofum sem notaði jafnvel svo fágæt orð að þau voru að deyja út.
Auður Jónsdóttir, barnabarn Halldórs, skrifar um afa sinn í bókinni „Skrýtnastur er maður sjálfur“ að í stað þess að segja: „konan hámaði í sig kökur,“ sagði hann: „Konan graðgaði í sig sætmetinu.“ Kvenveski kallaði hann ráptuðru og í stað þess að segja: „karlinn er slappur“ notaði hann frekar: „Það er lurða í karlinum.“
Þegar Halldór Laxness var staddur í Los Angeles árið 1928 setti hann saman kafla í Alþýðubókina sem nefnist „Um Jónas Hallgrímsson“: „Nú eru bráðum liðin hundrað ár síðan þessi útigángsmaður var á stjáki um flórhellurnar í Kaupinhöfn stúrinn og þrjóskulegur, einsog títt er um flibbalausa menn á biluðum skóm. Glóðin sem brann í augum hans lýsti fremur söknuði en von, enda týndist hann einn góðan veðurdag oní danskan herrans urtagarð og hefur ekki fundist síðan.“
Lengra brot úr kaflanum má lesa á heimasíðu safnsins.