Nýr bæklingur um hönnunar- og listmuni á Gljúfrasteini

05/05 2017

Nýr starfsmaður hefur bæst við í hóp safnsins, nánar tiltekið glæsilegur bæklingur um hönnunar- og listmuni á Gljúfrasteini. Með bæklingnum er í senn dregið fram í sviðsljósið það norræna handverk sem einkennir húsgögn og aðra muni heimilisins að Gljúfrasteini, sem og þau fjölmörgu málverk, hannyrðir og önnur listaverk er prýða veggi hússins.

 

Bæklingurinn er kærkomin viðbót við aðrar miðlunarleiðir safnsins, en gestum Gljúfrasteins er almennt boðið upp á vandaða hljóðleiðsögn um heimili Halldórs og Auðar. Segja má að með bæklinginn við hönd gefist önnur vídd í heimsóknina þar eð gestir fá fyllri mynd en áður af þeirri hönnunar- og listasögu sem Gljúfrasteinn geymir.

 

Dr. Arndís S. Árnadóttir segir frá nútímaheimilinu á Gljúfrasteini í greinargóðum kjarnyrtum texta. Bæklingurinn inniheldur þar að auki fjölmargar myndir af húsmunum og listaverkum með skýringartextum, ásamt grunnteikningu af neðri hæð hússins sem sýnir að auki niðurröðun húsgagna.

 

Birta Fróðadóttir og Helga Gerður Magnúsdóttir höfðu umsjón með gerð og hönnun bæklingsins, en  myndir tóku Einar Falur Ingólfsson, Oddgeir Karlsson, Rut Sigurðardóttir og Rúnar Gunnarsson o.fl.