Sunnudaginn 24. júlí munu Anna Guðný Guðmundsdóttir og Snorri Sigfús Birgisson koma fram og leika fjórhent á píanó. Þau munu flytja sónötu í C-dúr eftir Wolfgang Amadeus Mozart, þá síðustu sem hann samdi fyrir fjórhent píanó. Tónleikarnir hefjast kl. 16.00 og aðgangseyrir er 1000 kr.
Barn að aldri ferðaðist Mozart með föður sínum og systur, Nannerl, um Evrópu þvera og endilanga og spiluðu systkinin fyrir kónga og ráðamenn. Meðal verka á efnisskrá systkinanna voru tónsmíðar fyrir fjórhent píanó. Mozart samdi seinna margt fleira fyrir fjórhent píanó en síðasta verkið sem hann samdi af þessari gerð er sónatan sem leikin verður á Gljúfrasteini núna næstkomandi sunnudag. Hún var samin í Vínarborg árið 1787 þegar Mozart var 31 árs gamall. Þegar hann hafði lokið við að semja verkið sendi hann vini sínum, Gottfried von Jacquin, baróni, eintak og í meðfylgjandi bréfi bað hann baróninn að afhenda það systur sinni, Franzisku, og segja henni að byrja strax að æfa sig því verkið sé „fremur erfitt“.
Anna Guðný Guðmundsdóttir brautskráðist frá Tónlistarskólanum í Reykjavík þar sem kennarar hennar voru Hermína S. Kristjánsson, Jón Nordal og Margrét Eiríksdóttir og stundaði framhaldsnám við Guildhall School of Music í London. Hún hefur síðan starfað á Íslandi við margvísleg störf píanistans, í kammertónlist, sem meðleikari og einleikari. Hún hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2009 sem flytjandi ársins. Anna Guðný hefur verið píanóleikari Kammersveitar Reykjavíkur um langt árabil. Hún hefur leikið inn á um 30 geisladiska með ýmsum listamönnum. Hún kemur reglulega fram á Listahátíð í Reykjavík svo og innan raðar Tíbrár-tónleikanna í Salnum í Kópavogi. Hún er fastráðin við Sinfóníuhljómsveit Íslands og kennir við Tónlistarskólann í Reykjavík.
Snorri Sigfús Birgisson stundaði píanónám fyrst hjá Gunnari Sigurgeirssyni en innritaðist síðan í Tónlistarskólann í Reykjavík. Þar lærði hann á píanó hjá Hermínu S. Kristjánsson, Jóni Nordal og Árna Kristjánssyni en lagði einnig stund á tónsmíðar hjá Þorkeli Sigurbjörnssyni. Hann lauk einleikaraprófi 1974. 1974-1975 stundaði hann framhaldsnám í píanóleik hjá Barry Snyder við Eastman School of Music í Bandaríkjunum, 1975-76 tónsmíðanám í Osló hjá Finn Mortensen og 1976-1978 lærði hann tónsmíðar hjá Ton de Leeuw í Amsterdam. Snorri hefur starfað í Reykjavík sem tónskáld, píanóleikari, tónlistarkennari og stjórnandi síðan hann kom heim frá námi 1980. Hann er félagi í Caput-hópnum.