Nú stendur yfir menningarvor í Mosfellsbæ en næstu þrjá þriðjudaga verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá á Bókasafni Mosfellsbæjar við Þverholt 2. Þriðjudaginn 14. apríl nk. verður Guðrún Tómasdóttir í nærmynd en Bjarki Bjarnason rithöfundur mun ræða við Guðrúnu ásamt því að leikin verður tónlist m.a. í flutningi Guðrúnar og Sigrúnar Hjálmtýsdóttur (Diddú) og Vorboða, kórs eldri borgara í Mosfellsbæ.
Guðrún Tómasdóttir hóf söngnám í Bandaríkjunum skömmu eftir stúdentspróf og sneri að loknu framhaldsnámi í söng heim til Íslands. Hún hefur komið fram á fjölda einsöngstónleika ásamt því að starfa við söngkennslu og og raddþjálfun. Guðrún var útnefnd bæjarlistamaður Mosfellsbæjar ásamt eiginmanni sínum Frank Ponzi listsagnfræðingi og rithöfundi árið 2004. Saman byggðu þau Guðrún og Frank heimili að Brennholti í Mosfellsdal þar sem þau stunduðu m.a. ylrækt; ræktuðu vínvið og tómata ásamt öðru en sonur þeirra hefur nú tekið við þeirri iðju í Brennholti. Vinskapur var með þeim hjónum í Brennholti og Halldóri og Auði á Gljúfrasteini.
Dagskráin hefst kl. 20:00 og lýkur á kaffiveitingum í boði Guðrúnar.