Skáldið á Spotify

16/10 2020

Gljúfrasteinn á Spotify

Nú er að hefja göngu sína hlaðvarpssería Gljúfrasteins. Hún ber heitið Með Laxness á heilanum. Í henni er rætt við fólk sem er hugfangið af verkum Halldórs Laxness og hugmyndum hans um líf og tilveru. Starfsfólk safnsins vildi bjóða uppá rafræna skemmtun nú þegar safnið er lokað vegna Covid-19. Þættirnir verða á Spotify, á heimasíðu safnsins og á Facebooksíðu þess.

Upphafs- og lokalagið í þættinum gerði Sigrún Jónsdóttir, tónskáld en það er tilbrigði við lag sem Halldór Laxness söng við ljóð sitt Maístjörnuna í viðtalið við Pétur Pétursson á Gljúfrasteini árið 1987. 

Umsjón með þáttunum hefur Margrét Marteinsdóttir

Í fyrsta þætti talar Ragnar Kjartansson, listamaður um ást sína á verkum Halldórs og þá sérstaklega Heimsljósi.  Halldór Laxness var Mikki mús Ragnars Kjartanssonar þegar hann var lítill og Heimsljós gaf tóninn fyrir það sem Ragnar gerði síðar og gerir enn sem listamaður en hann segir að Heimsljós sé að finna í flestum hans verkum. ,,Halldór er og verður alltumlykjandi”, segir Ragnar. Í  þættinum segir hann einnig frá listaverkum sínum sem eru byggð á Heimsljósi Halldórs Laxness.  ,,Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum, þar búa ekki framar neinar sorgir og þessvegna er gleðin ekki nauðsynleg, þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu.”  Þessi fyrstu orð Fegurðar heimsins segist Ragnar hafa fengið með móðurmjólkinni. Lokaorð Heimsljóss eru Ragnari líka sérstaklega hugleikin: ,,Hugsaðu um mig þegar þú ert í miklu sólskini. Bráðum skín sól upprisudagsins yfir hinar björtu leiðir þar sem hún bíður skálds síns. Og fegurðin mun ríkja ein.”  Ragnar segir frá því að þessi orð séu lesin fyrir fólkið hans, til dæmis ömmur og afa þegar þau eru að kveðja í hinsta sinn ,,þetta eru banalegubókmenntir, ég held að sjaldan hafi dauðanum verið lýst jafnvel og í þessum texta. ... þetta er eins og að lesa Davíðssálmana, maður verður að heyra þetta þegar maður er að deyja.” segir Ragnar Kjartansson, listamaður í hlaðvarpsþætti Gljúfrasteins, Með Laxness á heilanum.
Þessi fyrsti þáttur í hlaðvarpsseríu Gljúfrasteins verður öllum aðgengilegur á Spotify frá og með föstudeginum 16. október.