Mario Vargas Llosa hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels 2010

07/10 2010

Halldór Laxness tekur við Nóbelsverðlaununum úr hendi Gústavs Adolfs VI. Svíakonungs í Stokkhólmi 1955.

Í dag tilkynnti sænska akademían í Stokkhólmi að Mario Vargas Llosa frá Perú hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels í ár.

Vargas Llosa hlýtur verðlaunin fyrir að kortleggja í skáldskap sínum hvernig vald er byggt upp og bregða jafnframt upp skörpum myndum af andófi einstaklinga, uppreisn og ósigri.

Vargas Llosa er 74 ára og hefur skrifað yfir 30 skáldsögur, leikrit og ritgerðir. Hann fékk Cervantes verðlaunin árið 1995 en það eru virtustu bókmenntaverðlaun, sem veitt eru fyrir skáldskap á spænsku. Bækur skáldsins hafa verið þýddar á 31 tungumál, þar á meðal íslensku. 

Peter Englund, ritari sænsku akademíunnar, tilkynnti um verðlaunin og sagðist hafa rætt við Vargas Llosa í morgun en Vargas Llosa er staddur í New York. Verðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn í Stokkhólmi þann 10. desember næstkomandi.
55 ár eru liðin síðan Halldór Laxness fékk nóbelsverðlaunin en í umsögn Akademíunnar kom fram að Laxness hlyti verðlaunin fyrir að endurnýja hina miklu íslensku frásagnarlist.