Málþing um varðveislu og skráningu gagna er tengjast Halldóri Laxness

24/01 2013

Íslandsklukkan kom út í þremur hlutum á árunum 1943-1946. Þetta er handrit bókarinnar.

Málþing um varðveislu og skráningu gagna er tengjast Halldóri Laxness verður í Norræna húsinu 31. janúar 2013 frá kl. 13.00 – 16.00

 

Gljúfrasteinn – hús skáldsins stendur fyrir málþinginu þar sem fjallað verður um varðveislu menningararfs Halldórs Laxness. Safnið á Gljúfrasteini hefur það hlutverk að varðveita, skrá og miðla því sem tengist lífsstarfi Halldórs Laxness. En fyrir utan safneignina á Gljúfrasteini er til fjöldi bóka, ljósmynda, muna, skjala, kvikmynda, upplestra, heimildaþátta og viðtala sem varðveitt eru á ýmsum öðrum stöðum. Málþingið miðar að því að kortleggja varðveislu og skráningu þessara fjölbreyttu gagna til að auðvelda miðlun og efla möguleika á frekari rannsóknum í framtíðinni. Þó málþingið beini sjónum að varðveislu ævistarfs Halldórs Laxness þá gera aðstandendur sér vonir um að umræðan muni gagnast í stærra samhengi.

Dagskrá
Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra setur þingið

„Sá veit gjörst hvar skórinn kreppir sem hefur hann á fætinum“
Fríða Björk Ingvarsdóttir, stjórnarformaður Gljúfrasteins reifar tildrög þingsins og ástæður þess að það er haldið. Tilefnið er varðveisla gagna sem tengjast arfleifð Halldórs Laxness á hinum ýmsu stöðum.

„Varðveisla og miðlun“
Margrét Sigurgeirsdóttir safnastjóri RÚV og Hreinn Valdimarsson tæknimaður RÚV.

Fjallað verður um varðveislumál og miðlun sjónvarps- og útvarpsefnis með hliðsjón af arfleifð Halldórs Laxness. Reifaður verður sá vandi sem við er að etja, auk þess sem veitt verður innsýn inn í þau auðævi sem þarna finnast og þann raunveruleika sem RÚV býr við varðandi aðgengi og miðlun efnisins jafnt til rannsókna og almennings.

Hlé. Kaffi og meðlæti.

Framsöguerindi:

„Laxness í kvikmyndasafni“
Erlendur Sveinsson forstöðumaður Kvikmyndasafns Íslands, fjallar um kvikmyndir gerðar eftir verkum Halldórs og um myndir sem fjalla um hann. Einnig um hvernig staðið er að varðveislu kvikmynda og fyrirhugað átak í yfirfærslu þeirra yfir á stafrænt form.

„Samvinna er lykilatriði“
Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður og fyrrverandi formaður safnaráðs fjallar um mikilvægi samvinnu þvert á stofnanir þegar kemur að varðveislu, skráningu og miðlun á menningararfinum.

„Laxness í Landsbókasafni – öryggi og miðlun“
Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir, landsbókavörður ræðir um ástand og öryggi varðveislumála í Þjóðarbókhlöðu með hliðsjón af efni tengdu Halldóri Laxness, aðstöðu til rannsókna og þær kröfur sem þar eru gerðar vegna varðveisluþáttar og öryggis gagnanna. Einnig um aðferðir til að miðla gögnum og framtíðarsýn Landsbókasafns hvað það varðar.

Pallborð:
Í pallborði verða Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður, Ingibjörg Sverrisdóttir landsbókavörður, Erlendur Sveinsson forstöðumaður Kvikmyndasafn Íslands, Bjarni Guðmundsson framkvæmdastjóri RÚV og Fríða Björk Ingvarsdóttir formaður stjórnar Gljúfrasteins.

Kolbrún Halldórsdóttir stýrir málþinginu og umræðum.

Málþingið er öllum opið.