Þann 31. jan frá kl. 13-16 verður haldið málþing um varðveislu og skráningu gagna er tengjast Halldóri Laxness í Norræna húsinu. Ærið tilefni er til að halda slíkt málþing því mikið er til af slíkum gögnum sem eru varðveitt á ýmsum mismunandi geymslustöðum enda af ólíkum toga.
Meðal þeirra gagna sem til eru má telja upplestrar Halldórs, ljósmyndir af honum og sem hann hefur tekið, handrit og margt fleira. Geymslustaðir gagnanna fara eftir eðli þeirra eins og gera má ráð fyrir. Upplestra Halldórs, viðtöl við hann og fleira má finna í safni Ríkisútvarpsins og Landsbókasafn Íslands varðveitir handritasafn Halldórs ásamt bréfum, minniskompum og fleiru en þar hafa þau verið skráð og flokkuð. Síðast en ekki síst má nefna Gljúfrastein þar sem munir sem tilheyra heimili Halldórs eru varðveittir en þeir eru einnig skráðir í Sarp, landskerfi byggðasafna.
Þar sem varðveislustaðirnir eru margir og skráningarkerfin eru ólík er mikilvægt að yfirsýn sé höfð yfir þessi menningarverðmæti. Málþingið er haldið til að vekja athygli á margbreytileika minjanna og þeirri hættu sem steðjað gæti að ef ekki er vel haldið utan um slík gögn.
Hér má finna fleiri upplýsingar um málþingið - http://www.gljufrasteinn.is/malthing_um_vardveislu_og_skraningu_gagna_er_tengjast_halldori_laxness/
Hér má finna viðburðinn á facebook - http://www.facebook.com/events/590888547595076/