Málþing og ný alþjóðleg bókmenntaverðlaun kennd við Laxness

22/04 2019

Halldór Laxness 17 ára

Á sumardaginn fyrsta verður haldið alþjóðlegt þing um Halldór Laxness í Veröld - húsi Vigdísar. Í vetur sem leið var þing helgað Halldóri Laxness haldið í Osló og var þá þegar ákveðið að þingið færi fram bæði í Osló og Reykjavík. Þingið er haldið í samvinnu við Gljúfrastein, sendiráð Noregs á Ísland, Stofnun Vigdísar, Fritt ord og Kulturrådet í Noregi.

Fram koma íslenskir og erlendir fyrirlesarar sem fjalla um Laxness í fjölbreyttu samhengi. Fyrirlesararnir eru Gerður Kristný, John Freemen, Mímir Kristjánsson, Auður Jónsdóttir, Halldór Guðmundsson, Karin Haugen og Tore Renberg. Þingið fer fram á ensku.

Á þinginu verður tilkynnt hver hlýtur Alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness í fyrsta sinn en til verðlaunanna var stofnað nú í vetur. Verðlaunin eru veitt alþjóðlega þekktum rithöfundi fyrir að stuðla að endurnýjun sagnalistar með verkum sínum, en fyrir það hlaut Halldór sjálfur Nóbelsverðlaunin á sínum tíma.