Lokað á Gljúfrasteini enn um sinn

13/08 2020

Ljósmynd: Einar Falur Ingólfsson 

Safnið á Gljúfrasteini verður áfram lokað og tónleikar sem vera áttu í stofunni falla niður vegna takmarkana á samkomuhaldi. Á Gljúfrasteini er ekki hægt að tryggja tveggja metra fjarlægðarmörk en sóttvarnarlæknir lagði til, 30. júlí síðastliðinn að gert yrði hlé á starfsemi safna, skemmtistaða og annarra opinberra staða þar sem ekki er hægt að tryggja að bil milli fólks sé yfir tveir metrar.  Það á við um safnið á Gljúfrasteini. 

Safnið verður þó áfram opið í netheimum og á heimasíðu safnsins, Instagram- og Facebooksíðum þess má finna ýmsan fróðleik um Halldór Laxness og verk hans. Einnig um Auði Laxness, húsið þeirra á Gljúfrasteini og safnið sjálft.  Á heimasíðunni er einnig hægt að skoða safnið í þrívídd, fara á milli herbergja í húsinu, skoða meðal annars listaverk, muni, bækur, húsgögn og hlusta um leið á Hamrahlíðakórinn syngja Hjá lygnri móðu, hinn undurfagra texta Halldórs Laxness úr Heimsljósi við lag Jóns Ásgeirssonar.  
Garðurinn umhverfis húsið er áfram opinn og í nágrenni Gljúfrasteins eru fallegar gönguleiðir, til dæmis upp með ánni Köldukvísl. 
Hér má sjá kort af gönguleiðum