Enn safnast í sarpinn og nýjasta viðbótin eru ljósmyndir frá árunum 1951-1954. Myndirnar eru frá þeim tíma þegar Halldór Laxness gegndi formennsku í MÍR og voru þær teknar þegar sendinefndir frá Sovétríkjunum heimsóttu Ísland. Í þessum sendinefndum voru meðal annarra heimsþekktir tónlistarmenn á borð við Aram Katsjatúrían tónskáld og Mstislav Rostropovitsj sellóleikara.
Iðulega var boðið til veislu á Gljúfrasteini í tengslum við tónleikana. Oftar en ekki léku tónlistarmennirnir fyrir gesti áður en boðið var upp á kvöldverð. Myndirnar eru teknar bæði í þessum heimboðum á Gljúfrasteini og á ráðstefnum sem MÍR hélt þegar sendinefndirnar voru staddar á landinu.
Unnið hefur verið að því að nafngreina fólkið á myndunum en þar má sjá ýmis kunnugleg andlit úr íslensku samfélagi á 20. öldinni. Ekki hefur þó tekist að nafngreina alla og biðjum við fólk um að láta okkur endilega vita ef það kannast við eitthvað af þessu ónafngreinda fólki.
Ívar H. Jónsson f.v. formaður MÍR, Sigríður Helgadóttir túlkur og Kjartan Ólafsson f.v. ritstjóri hjálpuðu til við að nafngreina fólkið á myndunum og eru þeim færðar bestu þakkir fyrir.
Myndirnar er hægt að skoða með því að smella á þennan tengil í Sarpi.