Íslenski safnadagurinn er á sunnudaginn 8. júlí. Í tilefni dagsins verður aðgangur ókeypis að Gljúfrasteini. Safnið er opið frá klukkan 9-17.
Klukkan 16 munu Kristín Bergsdóttir, Steingrímur Teague og Ómar Guðjónsson spila fyrir gesti. Þetta eru persónulegir og fjölbreyttir ljóðatónleikar með áherslu á skemmtilega texta á íslensku, ensku og portúgölsku.
Kristín Bergsdóttir er söngkona og lagahöfundur frá Reykjavík. Hún hóf nám í jazzsöng við Tónlistarskóla FÍH árið 2002 og útskrifaðist þaðan vorið 2009. Í nóvember 2009 kom út fyrsta breiðskífa hennar, Mubla, með frumsömdu efni. Kristín útskrifaðist frá tónsmíðadeild Listaháskóla Íslands vorið 2010. Hún hefur samið tónlist við gjörninga, leiksýningar, útvarpsleikhús og tekið þátt í tónlistarhátíðum eins og Iceland Airwaves, Jazzhátíð Reykjavíkur, Funk í Reykjavík, Þjóðlagahátíð á Siglufirði, Innipúkinn og fleirum.
Steingrímur Teague hóf nám í píanóleik við Tónlistarskóla Seltjarnarness á unga aldri, og útskrifaðist af jazzbraut Tónlistarskóla FÍH árið 2008. Steingrímur hóf tónlistarferil sinn með rokkhljómsveitinni Ókind, sem sendi frá sér sína fyrstu plötu árið 2003. Hann leikur í dag á hljómborð og syngur með sálarhljómsveitinni Moses Hightower, sem árið 2010 sendi frá sér hljómplötuna Búum til börn, en von er á næstu útgáfu sveitarinnar síðsumars 2012. Steingrímur er einnig meðlimur reggísveitarinnar Ojba Rasta, og hefur sem hljómborðsleikari, söngvari og textahöfundur unnið með breiðu samsafni listamanna og hópa, til að mynda Stórsveit Samúels Jóns Samúelssonar, Retro Stefson, Bloodgroup og Lögreglukórnum.
Ómar Guðjónsson gítarleikari er fastur meðlimur í m.a Jagúar, ADHD, Latinsveit Tómasar R. Einarssonar og Sjs big band. Hann hefur gefið út 3 plötur undir eigin nafni, þær eru Von í Óvon 2010, Fram Af 2008 og Varma Land 2003. ADHD hefur gefið út 2 skífur, ADHD 2009 og ADHD2 2011 Einnig hefur hann samið verk fyrir sjónvarp, leikhús og útvarp Hljómsveitin Ó Ó Ingibjörg sem er samstarfsverkefni systkinanna Ómars, Óskars og Ingibjargar Guðjónsbarna gaf út hljómdisk árið 2007
Halldór Laxness gekk mikið í nágrenni Gljúfrasteins. Starfsfólk safnsins veitir fúslega upplýsingar um skemmtilegar gönguleiðir í nágrenninu.