Senn líður að aðventu og því komið að árlegum aðventuupplestrum á Gljúfrasteini sem nú eru haldnir í tólfta sinn. Upplestrarnir hafa fest sig í sessi og eru góð slökun í amstri dagsins fjarri skarkalanum sem oft vill einkenna desember.
Sunnudaginn 29. nóvember les Vilborg Dagbjartsdóttir upp úr ljóðasafni sínu sem geymir allar ljóðabækur hennar, frumsamin ljóð og þýdd og nokkur áður óbirt ljóð. Auður Jónsdóttir mun lesa upp úr bók sinni Stóri skjálfti sem kom út fyrir skemmstu. Auður er heimavön á Gljúfrasteini og má geta þess að bók hennar Skrítnastur er maður sjálfur þar sem hún fjallar um afa sinn Halldór Laxness var endurútgefin núna í haust. Einar Már Guðmundsson mun lesa úr bók sinni Hundadagar og Sigurður Skúlason leikari flytur eigin ljóð úr bók sinni sem hann kallar, heim aftur.
Upplestrarnir hefjast stundvíslega kl. 16:00. Aðgangur er ókeypis og eru allir hjartanlega velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Dagskrá aðventuupplestra á Gljúfrasteini verður sem hér segir:
29. nóvember
Vilborg Dagbjartsdóttir - Ljóðasafn
Auður Jónsdóttir – Stóri skjálfti
Sigurður Skúlason – heim aftur
Einar Már Guðmundsson - Hundadagar
6. desember
Þórunn Jarla Valdimarsdóttir - Stúlka með höfuð
Þórdís Gísladóttir - Tilfinningarök
Hallgrímur Helgason – Sjóveikur í München
Soffía Auður Birgisdóttir - Ég skapa þess vegna er ég. Um skrif Þórbergs Þórðarsonar
13. desember
Jón Kalman Stefánsson – Eitthvað á stærð við alheiminn
Kristín Helga Gunnarsdóttir - Litlar byltingar
Dóri DNA - Hugmyndir: Andvirði hundrað milljónir – Lítil atvik, mikil eftirmál
Linda Vilhjálmsdóttir - Frelsi
20. desember
Kristín Svava Tómasdóttir - Stormviðvörun
Óskar Árni Óskarsson - Blýengillinn
Ólafur Ingi Jónsson - Nína Tryggvadóttir
Ólafur Gunnarsson - Syndarinn