Leitin að snertifletinum

04/05 2018

Halldór Laxness í vinnustofu sinni á Gljúfrasteini.

Nokkur umræða hefur verið að undanförnu um hvort ungt fólk hafi ekki áhuga á að lesa bækur eftir Halldór Laxness. Menntaskólakennarar hafa sumir sagt að erfitt sé að vekja áhuga nemenda á verkum Halldórs því þau falli ekki í kramið hjá krökkunum.  
Það var rætt um þetta í þættinum Lestin á Rás 1 fyrir nokkrum dögum.  Eiríkur Guðmundsson, umsjónarmaður þáttarins talaði við ungt fólk um sögurnar hans Halldórs, líka við menntaskólakennara og ævisöguritara skáldsins. 

Lestin á Rás 1

Þar vaknaði sú spurning hvort það væri kannski eðlileg þróun að krakkar í dag botni ekkert í verkum Nóbelskáldsins og hafi því ekki áhuga á að lesa bækurnar. Halldór Guðmundsson sem ritaði ævisögu Halldórs Laxness sagðist í viðtali í þættinum hafa fulla samúð með því að það geti verið ,, óttalegt havarí að fara að láta fólk lesa Sjálfstætt fólk nú á dögum“

Og svo var talað um snertifleti.  Hvort það þurfi að finna nýjar leiðir til að hjálpa ungu fólki að nálgast verk Halldórs, að kannski sé snertiflötinn að finna í greinum sem hann skrifaði þegar hann var ungur maður.  Greinar sem Halldór Guðmundsson,  segir að hafi verið  ,,fullar af oflæti æsingi og allskyns skrýtnum athugunum“  

En hvað hefði Halldór Laxness sjálfur sagt um þetta?
Í grein eftir hann sem birtist í blaðinu Rauðir pennar í desember árið 1935 undir yfirskriftinni Þeir útvöldu og fólkið skrifar Halldór meðal annars;

,,Það er erfitt að hugsa sér listamann, sem gæti átt æðri þrá en þá, að sem flestir skildu hann, að sem flestir þekktu í máli hans sína eigin rödd.“

og

,,Ég held, að ef góður listamaður ætti ósk, þá mundi hann óska sér þjóðfélags, þar sem hann væri hluti af öllum, og allir ættu hlut í honum.“

Grein Halldórs í Rauðum pennum árið 1935

Kannski er þessi grein snertiflötur við eitt íslenskt ungmenni.  Eða tvö, eða  ...