Í tilefni af 110 ára fæðingarafmæli Halldórs Laxness stendur nú yfir Laxness hátíð í Rússlandi. Dagana 11. -15. október verður m.a. haldin ráðstefna um skáldið og framlag hans til menningar. Heimildarmyndin Anti American wins Nobel Prize verður frumsýnd í Rússlandi og kvikmyndirnar Ungfrúin góða og húsið og Kristnihald undir Jökli verða til sýninga.
Á meðal íslenskra gesta á hátíðinni eru Halldór Halldórsson (Dóri DNA), barnabarn skáldsins, Árni Bergmann rithöfundur og fyrrverandi ritstjóri og Albert Jónsson sendiherra Íslands í Rússlandi.
Halldór Laxness fór fyrst til Sovétríkjanna árið 1932 og margsinnis eftir það. Árið 1933 tók hann þátt í stofnun Félags byltingarsinnaðra rithöfunda þar sem markmiðið var “að starfa á alþjóðlegum grundvelli byltingarsinnaðra rithöfunda”. Það sama ár kom út eftir hann bókin Í austurvegi þar sem hann lýsti ferð sinni til fyrirheitna landsins, Sovétríkjanna. Fimm árum síðar sendi hann frá sér aðra ferðasögu úr Austurvegi, Gerska ævintýrið. Löngu síðar í Skáldatíma (1963) gerir hann upp við hin lofsamlegu skrif sín og hrifningu á Sovétríkjunum.
Árið 1950 var stofnað menningarfélag sem nefndist Menningartengsl Íslands og Ráðstjórnarríkjanna (MÍR) og var Halldór kosinn forseti þess. Félagið stóð meðal annars fyrir komu sovéskra listamanna til landsins og mörgum þeirra var boðið heim á Gljúfrastein.