Langi sófinn í stofunni

17/12 2021

Auður og vinkonur hennar í langa sófanum

Langi sófi 

Þegar gestir Gljúfrasteins ganga inn í húsið til að fræðast um skáldið og fjölskyldu hans, þá byrja þeir á að skoða klukkuna í forstofunni sem gæti hafa sagt "ei-líbbð ei-líbbð" og altaristöfluna hans Kjarvals. Síðan opna þeir dyrnar inn í stofuna og þá blasir við hinn rúmlega fjögurra metra langi "langi sófi" með zebramunstri og púðum skreyttum framandi furðudýrum. Í þessari stofu er að finna framandi gripi og munstur ættuð heimshornanna á milli, í bland við flygil, heimasmíðaðar ljósakrónur, Maríuteppið sem Auður saumaði eftir fornri fyrirmynd á Þjóðminjasafninu og þar fyrir neðan situr Búdda, öruggur með sig, í djúpri hugleiðslu. Allt sem þau hjónin hafa valið í stofuna sína á einfaldlega heima hér og skapar hinn sérstaka heimilisbrag Gljúfrasteins.

Sófinn kom sér vel á heimili þeirra hjóna enda var þar ávallt mikill gestagangur. Hann var sérstaklega teiknaður og smíðaður fyrir heimilið á Smíðastofu Jónasar Sólmundarsonar um 1956. Hann hefur þrisvar sinnum verið yfirdekktur alltaf með svart hvítu munstri í afrískum stíl.