Maí er mánuður skólahópa á Gljúfrasteini. Í lok skólaárs er algengt að nemendur og kennarar fari í stuttar fræðslu- og skemmtiferðir. Margir skólar velja að koma á Gljúfrastein og því kemur fjöldi nemenda á safnið ár hvert. Börn og ungmenni á öllum skólastigum fá þá fræðslu sem hentar hverjum aldurshópi. Þeim er meðal annars sagt frá stráknum Dóra sem var sískrifandi, manninum Halldóri Laxness sem hélt áfram að skrifa, bókunum hans og persónunum sem þær geyma. Þau heyra af lífi hjónanna Auðar og Halldórs á Gljúfrasteini, af sögu safnsins, Nóbelsverðlaununum, Álfgrími í Brekkukoti, klukkunni sem sagði eil-líbbð, ei-líbbð, litlu brúðunni með stóra nafnið: Fríða Rósa Hólmfríður frú Engilbert, sem Dóra litla í Laxnesi þótti svo vænt um.
Þegar grunnskólanemar sem eru í 5-7.bekk koma á Gljúfrastein er sérstök áhersla lögð á að kveikja hjá þeim skapandi hugsun með því að hvetja þau til að lesa, skrifa, teikna, yrkja eða tjá sig á annan hátt en þó fyrst og fremst með því að taka eftir því sem fyrir augu ber, hlusta eða skynja umhverfið á þann hátt sem þeim finnst best.
Börnin í 7.bekk í Melaskóla, sem heimsóttu safnið í vikunni áttu ekki í neinum vandræðum með það. Þau veltu því fyrir sér hvort Halldór Laxness myndi vera að rappa ef hann væri barn nútímans. Hvernig sögurnar hans væru á Instagram og Snapchat. Hvort hann myndi spila Fortnite.
Vinirnir Daði Víðisson og Jökull Jónsson sögðust hafa áhuga á að gera söngleik um Halldór Laxness. Jökull sem er 12 ára, hefur lesið Barn náttúrunnar ,,ég gerði það fyrir mörgum árum“ sagði hann og bætti við að þetta væri besta bók sem hann hefði lesið. Fyrsti kaflinn sem ber heitið Maðkurinn er í mestu uppáhaldi hjá Jökli. Þeir félagarnir Jökull og Daði bjuggu líka til nokkrar nýjar persónur og gáfu þeim nöfn og komu þeim fyrir á bæjum, dölum og sýslum víðs vegar um landið. Þetta eru þau Hálfdán Símonarson kaupmaður í Kyngikúlum, Birgir Álfason úr Guðnasýslu, Aðalsteinn Ormssteinsson úr Laufárdal, Sigríður Vídalín frá Fosstungu og Vigdís Fossgerður úr Ormsgerði. Kannski fá þessar persónur sem urðu til í skólaferðalagi Melaskóla í Mosfellsdal, hlutverk í söngleiknum um Halldór Laxness sem þá Jökul og Daða langar að semja.