Fyrsti lestur nýrrar kvöldsögu Rásar 1 hófst föstudaginn 10. júlí en að þessu sinni er það skáldsagan Brekkukotsannáll (útg. 1957) sem lesin er af höfundi sjálfum. Halldór Laxness hefur verið áberandi í dagskrá Rásar 1 að undanförnu en í dag laugardag kl. 10:00 verður fjallað um Í túninu heima (útg. 1975) sem nú er bók vikunnar á Rás 1.
Í Víðsjá á fimmtudag mátti svo heyra umfjöllun um Brekkukotsannál ásamt broti úr viðtali sem Hrafn Gunnlaugsson átti við Halldór árið 1986.
Í ár eru liðin 60 ár frá því Halldór Laxness tók við Nóbelsverðlaununum í bókmenntum og verður þessara tímamóta minnst með ýmsum hætti m.a. með því að útvarpa hluta þess efnis sem varðveitt er í safni Ríkisútvarpsins; viðtölum við skáldið og lestri verka hans ásamt fleiru.