Kristinn og Jónas flytja lög við ljóð Halldórs

30/06 2013

Kristinn Sigmundsson söngvari og Jónas Ingimundarson píanóleikari.

Á næstu stofutónleikum Gljúfrasteins eru það ekki ómerkari menn en Kristinn Sigmundsson söngvari og Jónas Ingimundarson píanóleikari sem koma fram. Efnisskráin fyrir tónleikana smellpassar í stofuna á Gljúfrasteini en þeir munu flytja lög sem samin hafa verið við ljóð Halldórs. Lögin eru eftir Þórarin Guðmundsson, Jón Nordal, Jón Ásgeirsson, Jakob Hallgrímsson og Gunnar Reyni Sveinsson.

Tónleikarnir hefjast kl. 16.00 og aðgangseyrir eru 1000 krónur. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir. Við bendum á að fyrir þessa tónleika verður mögulegt að panta miða. Miðapantanir berist í síma 586-8066 eða á gljufrasteinn@gljufrasteinn.is

Jónas Ingimundarson stundaði tónlistarnám við Tónlistarskólann í Reykjavík og framhaldsnám við Tónlistarháskólann í Vínarborg. Jónas hefur síðan starfað sem píanóleikari, tónlistarkennari og kórstjóri. Hann hefur haldið fjölda tónleika á Íslandi og komið fram víða í Evrópu og í Bandaríkjunum ýmist einn eða með öðrum, einkum söngvurum, má þar nefna áratuga samstarf með  Kristni Sigmundssyni. Jónas hefur leikið inn á fjölda hljómplatna og hljómdiska og hefur staðið fyrir öflugu tónlistarkynningarstarfi í tengslum við tónleikahald sitt. Jónas hefur fengið listamannalaun og notið starfslauna listamanna  og er í heiðurslaunaflokki Alþingis. Jónas hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar og heiðursverðlaun fyrir störf sín.  Árið 2004 kom út bókin “Á vængjum söngsins” um ævi og störf  Jónasar skráð af Gylfa Gröndal. Jónas var útnefndur “Steinway artist” af Steinway og Sons, Hamborg 2006 og var gerður að heiðursborgara Kópavogs 2011. - frekari upplýsingar má sjá á http://jonasingimundarson.com/.

Kristinn Sigmundssson hefur starfað sem söngvari síðan 1984. Fyrst hér heima, en frá árinu 1989 hefur starfsvettvangur hans að mestu leyti verið erlendis.

Hann hefur komið fram í flestum stærstu óperu- og tónlistarhúsum heims, t.d. Metropolitan óperunni í New York, Staatsoper í Vínaborg, La Scala, Covent Garden, Opéra National í París, Deutsche Oper og Staatsoper í Berlin, Royal Albert Hall í London, Concertgebouw í Amsterdam, svo nokkuð sé nefnt. Á síðasta ári söng hann í Lohengrin í San Francisco, Tannhäuser í Tokyo og Strasbourg, Nabucco í Beijing og Don Carlo í Toulouse. Á næstunni mun hann syngja í Hollendingnum fljúgandi í San Francisco og Strasbourg og Rínargullinu í Houston. Kristinn er auk þess mikilvirkur konsert- og ljóðasöngvari. Hann hefur m.a. haldið fjölda ljóðatónleika með Jónasi Ingimundarsyni píanóleikara á Íslandi og víða um lönd. Meðal viðurkenninga sem Kristinn hefur hlotið eru Philadelphia Opera Prize og Opernwelt-verðlaunin í Belvedere óperusöngvarakeppninni í Vínarborg árið 1983, Stämgaffeln – Det klassiska svenska fonogrampriset 1991, Íslensku tónlistarverðlaunin 1995, 2010 og 2011 og Útflutningsverðlaun Forseta Íslands 2011. Hann var útnefndur bæjarlistamaður Kópavogs árið 2005 og hlaut Riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu árið 1995.

 

Hér má finna dagskrá stofutónleikanna fyrir sumarið 2013