Í dag, 8. febrúar eru liðin 25 ár frá því að Halldór Laxness lést. Hann var næstum jafnaldri 20. aldarinnar. ,,Klukkurnar hættar að tifa en skáldið lifir í verkum sínum” er titill greinar sem að Matthías Jóhannessen ritaði og birt var í Morgunblaðinu í febrúar 1998. Greinin er ein af mörgum góðum greinum sem birtust í Lesbók Morgunblaðsins til að minnast ævi og verka skáldsins.
Verk Halldórs lifa áfram góðu lífi. Upplestrar hans njóta ávalt vinsælda og eru aðgengilegir í spilara Rúv. Þar má hlýða meðal annars á Í túninu heima, Atómstöðina og Brekkukotsannál. Þá eru bæði Sjálfstætt fólk í upplestri Jóhanns Sigurðarsonar leikara og Salka Valka í upplestri Þórdísar Þorfinnsdóttur aðgengileg á Storytel. Þar er einnig að finna ævisögu Halldórs Laxness eftir Halldór Guðmundsson í upplestri höfundar. Á síðasta ári kom Salka Valka út í nýrri þýðingu Philips Roughton. Bókin fékk afbragðs góðar viðtökur og dóma.
Ljósmyndina tók Rúnar Gunnarsson.