Hljómsveitin Kaleo kemur fram í stofunni á Gljúfrasteini föstudaginn 7. febrúar. Tónleikarnir hefjast kl. 21.00 og aðgangur er ókeypis. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Tónleikarnir eru haldnir í tilefni af Safnanótt sem haldin er í samstarfi við Vetrarhátíð ár hvert. Safnanæturstrætó gengur í öll söfn sem taka þátt og er Gljúfrasteinn engin undantekning. Hingað kemur einn strætó sem fer frá Kjarvalsstöðum kl. 20.00 og fer til baka kl. 22.00.
Einnig verður opið á safninu um kvöldið frá 19-23 í tilefni Safnanætur og býðst gestum að skoða safnið sér að kostnaðarlausu. Einnig má minna á að Gljúfrasteinn tekur þátt í Safnanæturleiknum þar sem í boði eru veglegir vinningar. Frekari upplýsingar um hann má nálgast á vef vetrarhátíðarinnar.
Íslenska rokksveitin Kaleo vakti athygli landsmanna á síðasta ári en hljómsveitin er úr Mosfellsbænum og var stofnuð fyrir um ári síðan. Sveitina skipa þeir Jökull Júlíusson, Davíð Antonsson, Daníel Ægir Kristjánsson og Rubin Pollock. Þeir tóku þátt í Músíktilraunum í vor en slógu í gegn síðasta sumar með ábreiðu sinni af laginu Vor í Vaglaskógi, sem tekið var upp í Skúrnum á Rás 2.
Í nóvember kom fyrsta breiðskífa Kaleo út en hún ber einfaldlega nafnið Kaleo. Tónlistin er nokkuð fjölbreytt en í bland við kraftmikið rokk og ról sýnir hljómsveitin á sér mýkri hliðar.
Frekari upplýsingar um safnanótt má nálgast á vef Vetrarhátíðar