Merkur viðburður átti sér stað á Jónsmessu, sunnudaginn 24. júní á Rás 1 kl. 14:00. Í þættinum ,,Á Jónsmessunótt dansar óskasteinninn” var frumflutt þýðing Þórarins Eldjárns á ljóði Halldórs Laxness, ,,Sankt Hansilden blusser”. Hann orti Jónsmessuljóð þetta á dönsku þegar hann var staddur í Borgundarhólmi á Jónsmessu 1922, þá aðeins tvítugur. Þetta ljóð hefur nú í fyrsta skipti verið þýtt yfir á íslensku, en það gerði Þórarinn Eldjárn að beiðni Ríkisútvarpsins. Í þættinum var einnig fjallað um önnur skáldverk og tónverk sem tengjast Jónsmessu, bæði íslensk og erlend. Víða á Norðurlöndunum er það hefð að tendra Jónsmessubál, og kvæði Halldórs snýst að nokkru leyti um það. Umsjón með þættinum hefur Una Margrét Jónsdóttir.