Næstkomandi sunnudag, þann21. ágúst munu Helga Laufey Finnbogadóttir og Guðjón Þorláksson leika á flygil og kontrabassa á Gljúfrasteini. Samstarf þeirra hefur staðið um árabil og munu þau leika eigin útsetningar á jazz- og þjóðlögum í bland við frumsamið efni. Tónleikarnir hefjast klukkan 16.00 og aðgangseyrir er 1000 kr. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Helga Laufey Finnbogadóttir
lauk burtfararprófi á píanó frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1986 og stundaði síðan framhaldsnám við Sweelinck tónlistarháskólann í Amsterdam, fyrst í klassískum píanóleik en færði sig síðar yfir í jazzdeild skólans og útskrifaðist þaðan 1994. Hún hefur starfað við ýmsa tónlistarskóla, m.a. Tónmenntaskólann, Söngskólann í Reykjavík og Tónlistarskóla FíH. Hún kennir núna við Tónlistarskólann á Seltjarnarnesi ásamt því að taka virkan þátt í tónlistarlífinu, aðallega sem jazzleikari.
Guðjón Steinar Þorláksson
lauk burtfararprófi á kontrabassa árið 1986 frá Tónlistarskóla Kópavogs og kennaraprófi frá Kennaraháskólanum 1989. Hann var skólastjóri og kennari við Tónlistarskólann á Hallormsstað frá árinu 1989 - 1995. Hann hefur kennt við Tónskólann Do Re Mi frá árinu 1995 og við Tónlistarskólann á Seltjarnarnesi frá árinu 1996. Guðjón hefur spilað með ýmsum tónlistarmönnum og þá einkum jazztónlist.