Íslensku þýðingaverðlaunin fyrir þýðingu á erlendu skáldverki voru veitt á Gljúfrasteini í gær Sumardaginn fyrsta við hátíðlega athöfn. Herra Ólafur Ragnar Grímsson afhenti verðlaunin en þau hlaut Gyrðir Elíasson fyrir þýðingu sína á verkinu Listin að vera einn eftir Shuntaro Tanikawa, sem Dimma gaf út.
Fimm þýðendur voru tilnefndir til verðlaunanna að þessu sinni; Gyrðir Elíasson fyrir Listin að vera einn eftir Shuntaro Tanikawa (Dimma), Herdís Hreiðarsdóttir fyrir Út í vitann eftir Virginia Woolf (Ugla), Hermann Stefánsson fyrir Uppfinning Morels eftir Adolfo Bioy Casares (Kind 1005 Tímaritaröð), Jón St. Kristjánsson fyrir Náðarstund eftir Hannah Kent (JPV) og Silja Aðalsteinsdóttir fyrir Lífið að leysa eftir Alice Munro ( Mál og menning). Í dómnefnd sátu þau Árni Matthíasson (formaður), María Rán Guðjónsdóttir og Tinna Ásgeirsdóttir.
Starfsfólk Gljúfrasteins óskar vinningshafanum Gyrði Elíassyni innilega til hamingju.