Íslensku þýðingaverðlaunin 2014 afhent á Gljúfrasteini á Degi bókarinnar

22/04 2014

Kristín Guðrún Jónsdóttir sem hlaut Íslensku þýðingaverðlaunin 2013

Á Degi bókarinnar og afmælisdegi Halldórs Laxness miðvikudaginn 23. apríl verða Íslensku þýðingaverðlaunin afhent við hátíðlega athöfn á Gljúfrasteini.

Íslensku þýðingaverðlaunin hafa verið veitt frá árinu 2005 en stofnað var til þeirra í þeim tilgangi að heiðra þá þýðendur sem sinna því vandasama verki að færa okkur erlendar bókmenntir á móðurmáli okkar eins og segir á heimasíðu Bandalags þýðenda og túlka sem stendur að verðlaununum. Verðalaunin hafa verið afhent á Gljúfrasteini frá upphafi.

Tilnefningar í ár hljóta þau Ingunn Ásdísardóttir fyrir þýðingu sína á Ó-sögur um djöfulskap eftir Carl Jóhan Jensen, María Rán Guðjónsdóttir fyrir Rödd í dvala eftir Dulce Chacón, Njörður P. Njarðvík fyrir Ljóð 1954-2004 eftir Thomas Tranströmer, Rúnar Helgi Vignisson fyrir Sem ég lá fyrir dauðanum eftir William Faulkner og Stefán Steinsson fyrir Rannsóknir Heródótusar.

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra mun afhenda verðlaunin að þessu sinni við hátíðlega athöfn í húsi skáldsins.