Næstkomandi sunnudag, þann 17. júní munu Hanna Björk Guðjónsdóttir og Ingunn H. Hauksdóttir flytja nokkur af ástsælustu sönglögum þjóðarinnar á Gljúfrasteini sunnudaginn 17. júní klukkan 16. Það er við hæfi á þjóðhátíðardaginn að á efnisskránni eru verk helstu tón- og ljóðskálda síðari tíma á Íslandi. Á efnisskránni má finna lög eftir tónskáld eins og Atla Heimi Sveinsson og Sigfús Halldórsson við texta meðal annars eftir Matthías Jochumsson og Halldór Laxness. Aðgangseyrir er 1.000 kr og allir eru velkomnir.
Hanna Björk Guðjónsdóttir útskrifaðist með 8.stig frá Söngskólanum í Reykjavík vorið 1992. Hennar aðalkennari var Elín Ósk Óskarsdóttir en hún naut einnig leiðsagnar Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur og Guðmundu Elíasdóttur. Hanna Björk stundaði framhaldsnám í London hjá Ms. Gita Denise Vibyral og eftir það var hún tvo vetur í námi við tónlistaskóla Reykjavíkur hjá Rut Magnússon. Hanna Björk hefur komið víða fram sem einsöngvari við ýmis tækifæri þó einkum við kirkjulegar athafnir og sem einsöngvari með kórum. Hún hefur jafnframt verið fastameðlimur í Kór íslensku Óperunnar frá hausti 2006. Hanna Björk hefur kennt við einsöngsdeild Söngskólans Domus Vox frá árinu 2000 og vorið 2003 hlaut hún viðurkenningu kennsluréttinda frá The associated Board of the Royal Schools of Music.
Ingunn Hildur Hauksdóttir fæddist árið 1969 og nam píanóleik hjá Kristínu Ólafsdóttur við Tónlistaskóla Hafnarfjarðar. Hún lauk píanókennara- og einleikaraprófi árið 1993 frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og naut þar leiðsagnar Jónasar Ingimundarsonar. Ingunn hefur sótt einkatíma og námskeið erlendis, m.a. hjá Roger Vignoles, Dalton Baldwin, Nelita True, Gyorgy Sebök ofl. Hún kennir við Tónlistarskóla Kópavogs, Tónlistarskólann í Reykjavík og Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og tekur reglulega virkan þátt í íslensku tónlistarlífi og hefur m.a. leikið með Camerartica, Sinfóníuhljómsveit áhugamanna, komið fram í tónleikaröðinni 15:15 og tekið þátt í tónleikum Kammersveitar Reykjavíkur. Framundan eru tónleikar t.d. hjá Kammermúsikklúbbnum starfsárið 2012-2013. Ingunn er meðlimur í Notus-trio og leikur reglulega með Gretu Guðnadóttur fiðluleikara.