Sýning um íslensku lopapeysuna opnar í Hönnunarsafninu í Garðabæ fimmtudaginn 14. desember klukkan 16.00. Um er að ræða farandsýningu sem er samstarfsverkefni Hönnunarsafns Íslands, Heimilisiðnaðarsafnsins á Blönduósi og Gljúfrasteins. Sýningahönnuður er Auður Ösp Guðmundsdóttir.
Sýningin byggir á rannsókn Ásdísar Jóelsdóttur um uppruna, sögu og hönnun íslensku lopapeysunnar sem hún vann að frumkvæði safnanna þriggja. Háskólaútgáfan gaf út veglega og myndskreytta bók eftir Ásdísi sem byggir á þessari rannsókn. Bókin mun verða til sölu í safnbúðinni á Gljúfrasteini.
Íslenska lopapeysan þróaðist frá því að vera vinnufatnaður sem nýttist aðallega við erfið útistörf í það að vera að þjóðlegri minjavöru og vinsælli tískuvöru. Þannig endurspeglar peysan lífshætti og sögu þjóðarinnar.
Áhugi Gljúfrasteins á lopapeysunni tengist þætti Auðar Laxness sem var annáluð fyrir handverk sitt. Hún hannaði margar íslenskar lopapeysur á fimmta áratug síðustu aldar. Skrifaði greinar í tímarit um handverk og hönnun auk þess sem hún var kölluð í viðtöl meðal annars um lopapeysuna og hönnun hennar. Í bók Ásdísar kemur fram að Auður sé fyrsti nafngreindi hönnuður íslensku lopapeysunnar þó vissulega hafi fleiri konur komið að þessari þróun. Hlýða má á viðtal við Ásdísi Jóelsdóttur er hún var gestur á morgunvakt Rásar 1 fyrir skömmu.