Innansveitarkronika 50 ára, sýning

23/06 2020

Sagan af brauðinu dýra birtist upphaflega árið 1970 í minningarbók Halldórs Innansveitarkróniku. Hún var síðan gefin út aftur árið 1987 í tilefni af 85 ára afmæli Halldórs, myndskreytt af Snorra Sveini Friðrikssyni. Þetta er blaðsíða úr handriti Halldórs að sögunni.

Nú stendur yfir sýning á Gljúfrasteini um Innansveitarkroniku, Halldórs Laxness. Bókin kom út 1970 og fagnar því 50 ára afmæli. 

Þórunn Elísabet Sveinsdóttir er sýningastjóri og hönnuður sýningarinnar sem er í móttökunni á Gljúfrasteini. Móttakan sem áður var bílskúr kallar fram hughrif og kveikir vonandi áhuga gesta á að lesa Innansveitarkroniku. Sýningin er innsetning þar sem sjá má muni og myndir sem Hlíf Una Bárudóttir teiknar á vegg móttökunnar.

,,Þegar þjóðhetja íslands og höfuðskáld Egill Skallagrímsson hafði um skeið bygt haug sinn í Mosfellsdal nær þjóðbraut þar sem heitir í Tjaldanesi af því ferðamenn tjalda þar, þá kom kristni í landið. Á þessum stað koma tvær ár saman og falla í einu lagi útúr dalnum milli hárra bakka. Voru nú bein skáldsins tekin upp og færð úr hauginum til kirkju þó skáldið hefði verið heiðinn maður.”

Þannig hefst sagan Innansveitarkronika eftir Halldór Laxness sem kom út árið 1970 og var næstsíðasta skáldsaga hans. Þá  voru liðin fimmtíu og eitt ár frá því að fyrsta skáldsaga hans, Barn náttúrunnar (1919), kom út. Titillinn vísar til glímunnar við söguformið en krónika er fornt heiti á frásögn sem ekki lýtur sögumanni heldur rekur atburði eins og þeir raunverulega gerðust.
Atburðirnir sem fjallað er um gerðust á tímabilinu 1880 og fram á fimmta áratug síðustu aldar. Halldór spinnur sögu í kringum kostulegar deilur sóknarbarna um kirkjubyggingu að Mosfelli. Raunar má segja að sagan endurspegli sögu Íslands, allt frá hetjuskap fornaldar til þeirra miklu tímamóta sem heimsstyrjöldin síðari markaði í lífi þjóðarinnar. Frásagnaraðferð Halldórs er í ætt við Íslendingasögur, hvert orð vegur þungt og hverjum atburði lýst án óþarfa orðaskaks.

Í Innansveitarkroniku er meðal annars að finna Söguna af brauðinu dýra sem einnig hefur verið gefin út sérstaklega í myndskreyttum útgáfum á íslensku, ensku og þýsku. Þar segir frá Guðrúnu Jónsdóttur sem var send með brauð milli bæja en villtist dögum saman í þoku á heiðinni. Ekki snerti hún þó við brauðinu, hún útskýrði með þessum orðum: „Því sem manni er trúað fyrir, því er manni trúað fyrir."

Sögusviðið er Mosfellsdalur en Halldór Laxness (1902-1998) ólst upp í dalnum, á Laxnesi. Halldór og eiginkona hans Auður Sveinsdóttir (1918-2012), fluttust í dalinn og byggðu sér húsið Gljúfrastein árið 1945, þar sem nú er safn um skáldið og fjölskyldu hans.