Íslensku þýðingaverðlaunin fyrir þýðingu á erlendu skáldverki voru veitt á Gljúfrasteini fyrr í dag við hátíðlega athöfn. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra afhenti verðlaunin en þau hlaut Ingunn Ásdísardóttir fyrir þýðingu sína á færeysku skáldsögunni Ó - Sögur um djöfulskap eftir Carl Jóhan Jensen, sem Uppheimar gáfu út út.
Í umsögn dómnefndar um verðlaunaverkið segir:
Í Ó – søgur um djevulskap segir Carl Jóhan Jensen sögu Færeyja í óvenjulegri skáldsögu. Í bókinni fléttast saman margradda 200 ára epísk átakasaga sem Jensen eykur með ítarlegum neðanmálsgreinum sem grípa inní söguna, draga fram aðrar hliðar á frásögninni og snúa útúr henni. Orðfæri sögunnar er snúið, kostulegt og ævintýralegt, skreytt tilbúnum orðum og orðleysum, og verkið er endalaus sjóður af óvæntum uppákomum í tungumálinu. Ingunn Ásdísardóttir leysir með glæsibrag hverja þá erfiðu þraut sem við henni blasir.
Aðrir tilnefndir voru María Rán Guðjónsdóttir fyrir Rödd í dvala eftir Dulce Chacón, Njörður P. Njarðvík fyrir Ljóð 1954-2004 eftir Tomas Tranströmer, Rúnar Helgi Vignisson fyrir Sem ég lá fyrir dauðanum eftir William Faulkner og Stefán Steinsson fyrir Rannsóknir – Iεtopiai eftir Heródótus frá Halikarnassus.
Í dómnefnd sátu Móheiður Hlíf Geirlaugsdóttir, formaður, Árni Matthíasson og Hermann Stefánsson. Stjórn Bandalags þýðenda og túlka færir þeim þakkir fyrir þeirra góða og vandasama starf og óskar Ingunni Ásdísardóttur innilega til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu.
Bandalag þýðenda og túlka hefur veitt Íslensku þýðingaverðlaunin árlega síðan 2005 og er þetta því í tíunda sinn sem þau eru veitt. Verðlaununum eru ætlað að heiðra þýðendur og vekja athygli á þætti þýðinga og framlagi þýðenda til íslenskra bókmennta og bókmenntaarfs þjóðarinnar.