Breski rithöfundurinn Ian McEwan og Annalena McAfee eiginkona hans þáðu heimboð á Gljúfrastein í dag.
Nöfnurnar Guðný Dóra Gestsdóttir, forstöðukona safnsins og Guðný Halldórsdóttir, leikstjóri og dóttir Halldórs og Auðar Laxness tóku á móti hjónunum, sögðu þeim frá safnastarfinu í húsinu og af lífinu á Gljúfrasteini þegar Halldór Laxness og fjölskylda bjuggu hér. Að því loknu ræddi Ian McEwan við fjölmiðla í stofunni.
Ian McEwan hefur hlotið margar viðurkenningar fyrir verk sín, þar á meðal hin virtu Booker verðlaun. Á morgun tekur hann á móti alþjóðlegum bókmenntaverðlaunum sem kennd eru við Halldórs Laxness. Afhending verðlaunanna verður við hátíðlega athöfn í Veröld – húsi Vigdísar og þar flytur Ian McEwan erindi. Frítt er inn og öll velkomin á meðan húsrúm leyfir.
Þetta er í fyrsta sinn sem alþjóðlegu bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness verða veitt en að þeim standa forsætisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðherra, Íslandsstofa, Gljúfrasteinn, Bókmenntahátíð í Reykjavík og Forlagið, sem er útgefandi verka Halldórs.