Um næstu helgi fer fram bæjarhátíð Mosfellsbæjar, Í túninu heima en hún stendur yfir frá 23-26. ágúst. Á dagskránni fyrir helgina má finna ýmislegt spennandi svo sem skemmtidagskrá fyrir börn, íþróttaviðburði, listasýningar, útimarkaði og stórdansleik í íþróttahúsinu við Varmá með sjálfum Páli Óskari. Hátíðin hefst formlega á föstudagskvöldi á miðbæjartorgi Mosfellsbæjar þaðan sem gengið er í karnivalskrúðgöngu í svokallaðar Ullarnesbrekkur milli Varmár og Köldukvíslar þar sem varðeldur er tendraður og brekkusöngur fer fram. Hápunktur hátíðarinnar er á laugardagskvöld þegar stórtónleikar fara fram á miðbæjartorgi og stíga ávallt landsþekktar hljómsveitir ásamt heimamönnum á svið. Sérstök barnadagskrá er í upphafi tónleikanna.
Gljúfrasteinn tekur að sjálfsögðu þátt í hátíðarhöldunum en á sunnudaginn 26. ágúst verður líflegt í stofunni þar. Það er hljómsveitin Melchior sem kemur þar fram kl. 16.00 og slær með því botninn í stofutónleikaröðina þetta árið en hún hefur staðið yfir í sumar eins og svo oft áður.
Á Í túninu heima er margt um að vera og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Tilvalin hátíð fyrir fjölskylduna til þess að njóta síðustu daga sumarblíðunnar saman og kíkja í Mosfellsbæ.