Sunnudaginn 6. maí býður Vinafélag Gljúfrasteins og Ferðafélag Íslands upp á gönguferð um æskuslóðir Halldórs Laxness í Mosfellsdalnum. Mæting er við Gljúfrastein klukkan 10 sunnudaginn 6. maí.
Göngufólki er bent á að leggja bílum á bílastæði sem er handan gömlu brúarinnar neðan við Gljúfrastein. Þegar ekið er eftir Þingvallaveginum er beygt til hægri við græna strætóskýlið (Helgadalsvegur), beygt strax til vinstri inn gamla veginn í átt að gömlu brúnni (sjá mynd) að Gljúfrasteini. Áfangastaðir göngunnar verða m.a. Bringur en þaðan verður gengið að Helgufossi og svo niður með Köldukvísl að Gljúfrasteini, þar sem skoðaður er garðurinn og síðan húsið. Stoppað verður á leiðinni og verða m.a. lesnar stuttar tilvitnanir úr bókum skáldsins.
Gangan endar á Gljúfrasteini þar sem Pétur Ármannsson arkitekt og fararstjóri göngunnar mun segja frá Ágústi Pálssyni arkitekti, stíl hans og sjónarmiðum við hönnun Gljúfrasteins.
Lengd göngu og frásagnar er um 3 klst.
Þátttaka er ókeypis og frír aðgangur á Gljúfrastein fyrir göngufólkið, allir velkomnir.