Húsfyllir á stofuspjalli

26/04 2017

Síðastliðinn sunnudag var á Gljúfrasteini haldinn hátíðlegur alþjóðlegur dagur bókarinnar og höfundarréttar. 23. apríl er einnig afmælisdagur Halldórs Laxness, en 115 ár eru nú liðin frá fæðingardegi skáldsins.

Okkur hér á Gljúfrasteini fannst tilvalið að slá þessum merkisdegi upp í stofuspjall um Elsku Draumu mína, minningabók Sigríðar Halldórsdóttur, og fagna því að enn streyma textar í bækur sem eiga upptök sín héðan frá Gljúfrasteini.

Sigríður fékk Eddu Björgvinsdóttur vinkonu sína með sér í giggið og saman spjölluðu þær fyrir húsfylli af áhugasömum gestum um vinskapinn þeirra í milli, Mosfellsdalinn eins og hann kemur fyrir í bókinni og konurnar sem báru uppi sveitina sem Sigríður ólst upp í.