Um eitthundrað börn sem eru að ljúka 5.bekk í Laugarnesskóla komu í fræðslu- og skemmtiferð á Gljúfrastein í vikunni. Maí hefur mörg síðustu ár verið mánuður skólahópa á safninu en vegna samkomubanns var gerð sú breyting í ár að bjóða aðeins upp á leiðsögn fyrir nemendur utandyra en þeim og kennurunum bent á að hægt er að skoða safnið í þrívídd á netinu.
Boðið er uppá sérsniðnar heimsóknir fyrir hvert og eitt aldursstig og er frítt fyrir nemendahópa og hópstjóra sem koma í námsferð á Gljúfrastein, nánar um það hér.
Þegar grunnskólanemar í 5-7. bekk koma á Gljúfrastein eru þau hvött til að taka eftir því sem fyrir augu ber, að hlusta eða skynja umhverfið á þann hátt sem þeim finnst best. Þannig verða hugmyndir oft til, sumar svo góðar að þær geta til dæmis orðið að skáldsögu, ljóði, dansverki, dægurlagi, rappi eða málverki. Náttúran er gjöful uppspretta hugmynda og gönguferð um nágrenni Gljúfrasteins er góð byrjun. Börnin í 5.bekk í Laugarnesskóla voru afar áhugasöm um ævi og verk Halldórs Laxness en þau hafa í vetur lesið bókina Skrýtnastur er maður sjálfur eftir Auði Jónsdóttur, rithöfund og barnabarn Halldórs. Í bókinni dregur Auður upp mynd af Halldóri afa sínum bæði sem litlum dreng og gamla manninum sem hún þekkti.
Starfsfólk Gljúfrasteins óskar nemendum og kennurum gleðilegs sumars.