Gunnar Gunnarsson og Tómas R. Einarsson flytja íslenska sálma og kirkjutónlist útsetta fyrir kontrabassa og píanó á stofutónleikum Gljúfrasteins næstkomandi sunnudag.
Efniskráin samanstendur af Passíusálmum útfærðum eftir hin ýmsu íslensku tónskáld, auk tónlistar eftir Atla Heimi Sveinsson og flytjendurna báða, Tómas og Gunnar.
Gunnar Gunnarsson lauk kantorsprófi frá Tónskóla þjóðkirkjunnar árið 1988 og lokaprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík ári síðar. Gunnar hefur getið sér gott orð fyrir fjölbreytilegan tónlistarflutning og víða komið fram á tónleikum innan lands og utan og hefur hann útsett og flutt trúarlega tónlist með óhefðbundnum hætti um árabil. Einnig hefur hann leikið á píanó með mörgum þekktum tónlistarmönnum og átt þátt í útsetningum og hljóðritunum bæði djasstónlistar og þjóðlegrar tónlistar. Á undanförnum árum hefur Gunnar í auknum mæli útsett fyrir kóra og sönghópa bæði hefðbundna sálmatónlist og djass. Hann er organisti Fríkirkjunnar í Reykjavík.
Tómas R. Einarsson kontrabassaleikari hefur gefið út fjölda diska með frumsaminni tónlist sem einnig hefur verið útsett fyrir stórsveitir og kóra og endurhljóðblönduð og valin á alþjóðlega safndiska. Hann er ekki síst þekktur fyrir latínplötur sínar en þær hafa nú selst í 12 þúsund eintökum. Síðasti diskur hans er Mannabörn (2014) þar sem Sönghópurinn við Tjörnina og Sigríður Thorlacius flytja 18 lög hans, útsett af Gunnari Gunnarssyni.
Stofutónleikarnir eru haldnir hvern sunnudag frá 1. júní til 31. ágúst og hefjast þeir klukkan 16:00. Miðaverð er 1500 krónur.