Hugljúf sönglög við ljóð skáldkvenna og Davíðs Stefánssonar

10/08 2015

Hjónin Kristjana Arngrímsdóttir söngkona og Kristján Hjartarson gítarleikari flytja frumsamin lög Kristjönu við ljóð Davíðs Stefánssonar og skáldkvennanna Jakobínu Sigurðardóttur, Elísabetar Geirmundsdóttur og Lenu Gunnlaugsdóttur á stofutónleikum sunnudaginn 16. ágúst.

Kristjana Arngrímsdóttir og Kristján E. Hjartarson hafa um langt skeið tekið þátt í tónlistarlífi í sinni heimabyggð, Dalvíkurbyggð. Kristján tileinkaði sér snemma vísnasöng af Skandinavískri fyrirmynd og kom fram sem trúbador víða um land. Kristjana fór snemma að syngja í kórum og á leiksviði en hún tók virkan þátt í starfi Leikfélags Dalvíkur. Þar lágu leiðir þeirra Kristjáns og Kristjönu saman í fleiri en einum skilningi og þar með upphófst samleikur og tónlistarlegt samstarf þeirra beggja.

Seinna stofnuðu þau Tjarnarkvartettinn ásamt þeim Hjörleifi Hjartarsyni og Rósu Kristínu Baldursdóttur. Tjarnarkvartettinn starfaði óslitið í á annan áratug og söng víða um land og í Evrópu.

Fyrir fimmtán árum gaf Kristjana út sinn fyrsta sólódisk, "Þvílík er ástin", og það sama ár fluttu hjónin til Danmerkur  og bjuggu þar í fimm ár. Á þeim tíma ferðuðust þau um Danaveldi og víðar og fluttu tónlist sína við ólík tækifæri. Eftir heimkomuna til Íslands 2005 gaf Kristjana út annan hljómdisk, "Í húminu", þar sem hún flytur íslensk og dönsk vísnalög, þjóðlög og sálma. Árið 2011 gaf Kristjana svo út hljómdiskinn "Tangó fyrir lífið".

Stofutónleikarnir eru haldnir hvern sunnudag frá 1. júní til 31. ágúst og hefjast þeir kl. 16:00. Miðaverð er 1500 krónur.

Dagskrá stofutónleika Gljúfrasteins í heild sinni