Á Gljúfrasteini eru ýmis húsgögn eftir þekkta hönnuði, ekki síst frá Danmörku. Nægir þar að nefna Eggið eftir Arne Jacobsen. Halldór og Auður fengu hann í Kaupmannahöfn, enda ekki auðvelt að fá slíka hluti á Íslandi um miðja síðustu öld. Eggið var oft órjúfanlegur bakgrunnur á ljósmyndum af Halldóri. Lági leðurstóllinn, Veiðistóllinn eða The hunting chair, eftir danska hönnuðinn Børge Mogensen, var í sérstöku uppáhaldi hjá Halldóri Laxness. Auður Sveinsdóttir, kona Halldórs, hafði á orði að það hefði enginn setið í þessum stól nema Halldór og að hann hafi haft alveg sérstakt lag á að standa uppúr honum líka. Í eldhúsinu á Gljúfrasteini má svo finna skemmtilega trékolla á þremur fótum. Þeir eru hannaðir af Mogens Lassen árið 1942.