Hljómplötusafn Gljúfrasteins hefur nú verið skráð í Sarp. Safnið telur á þriðja hundrað hljómplötur og kennir þar margra grasa. Hægt er að skoða hverja færslu fyrir sig, skoða ljósmyndir af plötuumslögum og af plötunum sjálfum. Halldór Laxness var mikill tónlistarunnandi og var Bach í miklu uppáhaldi hjá honum. Á fyrstu búskaparárum Halldórs og Auðar á Gljúfrasteini stóðu þau fyrir stofutónleikum þar sem fram komu þekktir listamenn. Í hljómplötusafninu eru meðal annars hljómplötur áritaðar af píanóleikaranum Rudolf Serkin sem hélt tónleika á Gljúfrasteini árið 1946. Þar er líka að finna hljómplötur frá Sovétríkjunum og Indlandi sem þau hjónin ýmist keyptu eða fengu gefins á ferðalögum sínum um heiminn.
Undanfarið hefur verið unnið við skráningar á safnkosti Gljúfrasteins. Þar með talið hljómplötusafnið sem telur á þriðja hundrað plötur. Hægt er að skoða hljómplötusafnið inná Sarpi . Kristín Lilja Thorlacius Björnsdóttir sá um skráningu á hljómplötunum og Andrew Murray ljósmyndaði þær.
Sarpur er menningarsögulegt gagnasafn, fullt af fróðleik. Í Sarpi er meðal annars að finna upplýsingar um listaverk, muni, myndir og annað efni sem varðveitt eru á íslenskum minjasöfnum.
Gljúfrasteinn er aðili að Sarpi og hafa flest allir safngripir á Gljúfrasteini verið skráðir í Sarp. Bókasafn Gljúfrasteins er allt skráð í Gegni og sér Sigríður Þóra Árnadóttir bókasafns- og upplýsingafræðingur um að halda utan um bóksafnið, yrirfara færslur og frumskrá bækur.