Heimsljós, sem kom út í fjórum hlutum á árunum 1937 til 1940, er saga fátæka alþýðuskáldsins Ólafs Kárasonar Ljósvíkings. Þetta er ein ástsælasta saga Nóbelsskáldsins en nú er verið að sýna leikverkið í Þjóðleikhúsinu. Kjartan Ragnarsson sá um leikgerðina en hann hefur áður skapað leikverk upp úr skáldsögum Halldórs Laxness með frábærum árangri. Má þar nefna áhrifamikla uppsetningu hans á Sjálfstæðu fólki í Þjóðleikhúsinu árið 1999 og leikgerðir hans af völdum hlutum Heimsljóss sem voru frumsýndar við opnun Borgarleikhússins árið 1989, Ljós heimsins og Höll sumarlandsins. Það eru Hilmir Snær Guðnason og Björn Thors sem leika Ólaf.
„Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum, þar búa ekki framar neinar sorgir og þessvegna er gleðin ekki nauðsynleg, þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu."
Fegurð himinsins. 1. kafli.