Heimilisleg stemming og tónleikar á Safnanótt

23/01 2018

Í tilefni Safnanætur verður opið fram eftir kvöldi á safninu á Gljúfrasteini og gestum boðið upp á annars konar upplifun á húsinu. Safnmenn munu fella niður klæði safnsins og opna dyrnar að heimilinu fyrir innlit líkt og almennt tíðkaðist hér áður fyrr. Allt er gert til þess að færa heimilislífið nær gestum en almennt er hægt að gera aðra hefðbundna safndaga ársins: Safnmenn verða á vappinu og spjalla við gesti og gangandi. Tónlist verður á fóninum, skápar opnaðir og munir dregnir fram, túrkísbláar flísar baðherbergisins fá að njóta sín fyrir opnum dyrum, Mosfellsdalurinn séður frá svölum skáldsins, loks verður eldhúsinu flíkað að hætti húsfreyjunnar. 

Klukkan 20:30 mun stofan svo umbreytast í tónleikasal og Hljómsveitin Eva stíga á stokk. Engin aðgangseyrir verður að safninu á Safnanótt og safnanæturstrætó mun ganga endurgjaldslaust að Gljúfrasteini fyrir og eftir tónleikana. Lagt verður af stað frá Kjarvalsstöðum kl. 19.50 og til baka að Kjarvalsstöðum að tónleikum loknum um 21.30.

Hér gefur að líta tímatöflu safnanæturstrætó