Þýska forlagið Steidl hefur síðustu áratugina unnið mikið og gott starf við þýðingu og útgáfu á verkum Halldórs Laxness í Þýskalandi.
Á þessu ári var gerð heimildamynd um Gerhard Steidl, bókaútgefandann sem stendur á bak við Steidl bókaforlagið. Myndin ber heitið Að búa til bók með Steidl og þar fylgja kvikmyndagerðamennirnir Jörg Adolph og Gereon Wetzel Steidl eftir og fylgjast með ferðalögum hans og starfi hans. Þessi mynd er nú til sýningar á RIFF – alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík.
Þess má geta að Steidl hefur nú endurnýjað samninga um útgáfu á fimmtán verkum Halldórs í Þýskalandi. Valgerður Benediktsdóttir hjá Forlaginu segir að Steidl ætli sér að gefa þessar bækur út með nýjum bókakápum til að höfða til yngri lesenda. Hægt er að lesa meira um þá útgáfu á vef Sögueyjunnar Íslands.