Bæjarhátíð Mosfellsbæjar er nefnd eftir einni af eftirminnilegustu endurminningabók Halldórs Laxness, Í túninu heima, þar sem hann rifjar upp æskuárin og segir frá átthögunum, Mosfellsdalnum. Gljúfrasteinn ætlar af því tilefni að bjóða heimamönnum og öðrum gestum bæjarhátíðarinnar í einkar alþýðlega heimsókn laugardaginn 26. ágúst næstkomandi.
Safnmenn munu fella niður klæði safnsins og opna dyrnar að heimilinu fyrir innlit líkt og almennt tíðkaðist hér áður fyrr. Allt er gert til þess að færa heimilislífið nær gestum en almennt er hægt að gera aðra hefðbundna safndaga ársins:
Safnmenn verða á vappinu og spjalla við gesti og gangandi. Tónlist verður á fóninum, skápar opnaðir og munir dregnir fram, túrkísbláar flísar baðherbergisins fá að njóta sín fyrir opnum dyrum, Mosfellsdalurinn séður frá svölum skáldsins, loks verður eldhúsinu flíkað að hætti húsfreyjunnar.
Hér er ekki úr vegi að minna á nýútkominn bækling um hönnunar- og listmuni hér á Gljúfrasteini, því hann er eins og gerður fyrir einmitt svona daga. Með bæklingnum er í senn dregið fram í sviðsljósið það norræna handverk sem einkennir húsmuni heimilisins, sem og þau fjölmörgu listaverk er prýða veggi hússins.
Síðustu stofutónleikar sumarsins fara svo fram á sunnudeginum og er það engin önnur en tónlistarkonan Sóley sem slær botninn í tónleikaröðina þetta árið. Hún mun framlengja sumarið lítið eitt með flutningi á lögum af nýjustu plötunni sinni, Endless Summer, í bland við önnur lög.
Miðar eru seldir í safnbúðinni samdægurs og kosta 2.000 kr. Mælt er með því að fólk mæti snemma til að tryggja sér miða og sæti þar sem plássið er takmarkað og sætaskipan frjáls í stofunni. Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 16:00 og eru um hálftíma langir.
• Opnunartími Gljúfrasteins er 09:00 – 17:00 út ágústmánuð.
• Enginn aðgangseyrir er inn á safnið á laugardeginum 26. ágúst næstkomandi.