Haydn, Purcell og Ravel á Gljúfrasteini.

06/08 2013

Næstu stofutónleikar á Gljúfrasteini verða haldnir þann 11. ágúst næstkomandi. Þar koma fram Sigríður Ósk Kristjánsdóttir mezzósópran og Hrönn Þráinsdóttir píanóleikari og munu þær flytja cantötuna Arianna a Naxos eftir Haydn, Purcell sönglög og Hebreskar melódíur eftir Ravel.

Sigríður og Hrönn Þráinsdóttur hafa starfað saman síðan 2010 en þær hafa komið fram við ýmis tækifæri m.a. á hátiðartónleikum Rotary í Reykjavík og í Eldborg í Hörpu einnig fluttu þær dagskránna Norrænir tónar tan ta ra rei!  í sumartónleikaröð á Mývatni, á Stokkalæk og á Sigurjónssafni.

Sigríður Ósk Kristjánsdóttir, mezzó sópran nam óperusöng við óperudeild Roayl College of Music í London og útskirfaðist þaðan með meistaragráðu og Artist Diploma.  Nú sækir hún tíma m.a hja Russell Smythe og Sigríði Ellu Magnúsdóttur.  Nýverið söng Sigríður hlutverk í óperusýningunni Insanity með Kiez Oper í Berlin ásamt söngvurum frá Staats Oper Studio, söngur hennar hljómar í nýjasta verki í sænska danshöfundarins Jefta Van Dinther, Plateau Effect .  Verkið er flutt af einum frægasta dansflokki Svíþjóðar, Culberg Ballet.  Einnig söng hún nýverið í nútímaóperunni Jakob Lenz með English Nationa Opera í London og söng með Dame Emmu Kirkby og  Southbank Sinfóníunni undir stjórn Simon Over í Cadoag Hall í London sem var útvarparð á Classical FM í Englandi.  Sigríður hefur sungið óperuhlutverk með ýmsum óperufélögum m.a með Íslensku Óperunni, English Natinal Opera, The English Touring Opera, Glyndebourne Festival Opera og Iford Festival Opera í Englandi.  Sigríður hefur komið fram sem einsöngvari í virtum tónleikasölum eins og Royal Albert Hall, Kings Place, St Martin-in-the-Fields í London.  Hún kemur reglulega fram á ljóðatónleikum og í óratoríum.  Á Íslandi hafur hún m.a. sungið með Íslensku Óperunni, í óratoríum með Mótettukórnum og Óperukór Reykjavíkur.  Hún flutti  verkið Chansons Madécasses eftir Ravel með Elektra Ensemble og hefur komið fram í ýmsum tónleikaröðum eins og Tíbrá og á Sigurjónssafni.   Sigríður söng inn á diskinn Engel Lund Book of Folk Songs eða Söngbók Engel Lund sem gefið var út af Nimbus Records ásamt London Lieder Theatre.

Hrönn Þráinsdóttir píanóleikari hóf nám við Tónmenntaskólann í Reykjavík 7 ára gömul hjá Erlu Stefánsdóttur. Hún stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík á árunum 1991-1998 hjá Jónasi Ingimundarsyni og lauk þaðan burtfararprófi.  Í Þýskalandi stundaði hún nám við tónlistarháskólann í Freiburg og lauk þaðan Diploma kennaraprófi með ljóðasöngsmeðleik sem aukafag vorið 2004. Kennarar hennar voru Prof. Dr. Tibor Szasz í píanóleik og Prof. Hans-Peter Müller við ljóðasöngdeild.  Að því loknu stundaði hún nám við tónlistarháskólann í Stuttgart undir handleiðslu Prof. Cornelis Witthoefft þar sem hún lauk sumarið 2007 sérhæfðu Diploma námi við ljóðasöngdeild skólans.  Hrönn hefur komið fram á tónleikum víða, m.a. í Þýskalandi, Austurríki, Ítalíu,Grænlandi og á Íslandi sem einleikari, meðleikari og við flutning kammertónlistar.  Hún hefur tekið þátt í ýmsum hátíðum eins og Ung Nordisk Musik,Við Djúpið á Ísafirði og var píanisti hátíðarinnar Berjadaga á Ólafsfirði sumarið 2010.  Hún hefur verið meðlimur kammersveitarinnar Ísafoldar frá árinu 2004 en sveitin hlaut   íslensku tónlistarverðlaunin sem flytjandi ársins fyrir árið 2007.  Hrönn er kennari við Söngskólann í Reykjavík og við Tónlistarskólann í Reykjavík.

Tónleikarnir hefjast að venju klukkan 16.00 og er aðgangseyrir 1000 kr. Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Hér má finna dagskrá stofutónleika Gljúfrasteins í sumar