Vakin er athygli á Laxness tónleikum í Hörpu:
Classical concert company, Reykjavík mun í sumar halda tónleika í Hörpunni tileinkaða Halldóri Laxness og tónlistinni sem innblásin er af verkum hans.
Mikið hefur verið samið af tónlist við ljóð Halldórs og mörg þessara laga hafa verið meðal vinsælustu tónlistar á tuttugustu öldinni. Lög á borð við Hjá lygnri móðu og Maistjörnuna hafa glatt unga sem aldna og eru þekkt af velflestum Íslendingum.
Halldór hafði alla tíð mjög gaman af tónlist og hún var stór partur af lífi hans. Hann spilaði sjálfur á hljóðfæri og var ekki eldri en tólf ára þegar hann settist við orgel Lágafellskirkju til að stjórna sálmasöngvi sveitunga sinna og Bach var alltaf hans eftirlætistónskáld. Tónlist var ávallt stór partur af heimilislífinu á Gljúfrasteini og í stofunni á stór flygill sér heiðurssæti. Hann var mikið notaður enda voru reglulega haldnir tónleikar þar og komu fram hinir ýmsustu listamenn erlendir sem innlendir.
Halldór skrifaði meðal annars um tónlist „Ég heyri sjaldan svo vonda tónlist að hún segi mér ekki meira en talað orð og ef það væri ekki vegna tónlistarinnar mundi ég aldrei ljúka upp útvarpstæki – nema til að hlusta á veðurfregnirnar“.
Það má því gera því skóna að tónleikar á borð við þessa þar sem höfundarverk Laxness er kynnt gegnum ljúfa tóna hefði ekki verið nóbelsskáldinu á móti skapi.
Tónleikarnir eru um það bil 75 mínútur með hléi og kynningarnar eru á ensku og þýsku þó að sungið sé á íslensku. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Classical concert company Reykjavík sem og heimasíðu Hörpu.