Síðasta áratuginn hefur þýska forlagið Steidl unnið gott og mikið starf við þýðingu og útgáfu á verkum Halldórs Laxness í Þýskalandi. Að tilefni þátttöku Íslands í bókasýningunni í Frankfurt í haust hefur Steidl endurnýjað samninga um útgáfu á fimmtán verkum Halldórs í Þýskalandi. Valgerður Benediktsdóttir hjá Forlaginu segir að Steidl ætli sér að gefa þessar bækur út með nýjum bókakápum til að höfða til yngri lesenda.
Sögueyjan Ísland sem sér um kynningarmál á íslenskum verkum fyrir bókamessuna í Frankfurt 2011 heimsótti Gljúfrastein á dögunum og tók upp myndband þar sem m.a. má sjá nemendur Kvennaskólans í Reykjavík sem hafa nýlokið við lestur Íslandsklukkunnar.
Verk Halldórs hafa verið þýdd á að minnsta kosti 43 tungumál. Enn er verið að þýða Halldór yfir á ný tungumál, en fyrsta útgáfan á arabísku kom t.d. út í fyrra þegar Brekkukotsannáll kom út í Líbanon. Á vef Gljúfrasteins er hægt að sjá lista yfir erlendar útgáfur á verkum Halldórs og hlökkum við til að bæta nýjum útgáfum Steidl við þann lista.