Eins og undanfarin ár býður Gljúfrasteinn gesti velkomna á Safnanótt sem að þessu sinni er föstudaginn 10. febrúar. Húsið er opið milli klukkan 19-23 og er aðgangur ókeypis. Safnanæturstrætó að Gljúfrasteini leggur af stað frá Kjarvalsstöðum kl. 20 og snýr aftur til Reykjavíkur kl. 22. Þessi strætó er tilvalinn fyrir þá sem vilja heimsækja Mosfellsdalinn og horfa á tónleika hjá Hafdísi Huld og gítarleikaranum Alisdair Wright en þeir hefjast í stofu skáldsins klukkan 21.
Tónlistarkonan Hafdís Huld Þrastardóttir útskrifaðist frá The London Centre of Contemporary Music árið 2006. Sama ár sendi hún frá sér sína fyrstu sólóplötu Dirty Paper Cup og kom platan út um alla Evrópu á vegum Redgrape Records. Platan hlaut frábæra dóma í erlendum fjölmiðlum og var einnig valin poppplata ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum sama ár.
Önnur plata Hafdísar Huldar Synchronised Swimmers kom út hér á landi árið 2010, og svo ári seinna í Evrópu og í Bandaríkjunum. Platan fékk jákvæða umfjöllun í fjölmiðlum og var mikið spiluð í útvarpi bæði hér heima og erlendis.
Undanfarin ár hefur Hafdís verið iðin við tónleikahald og komið fram á mörgum af þekktustu tónlistarhátíðum heims, má þar sem dæmi nefna Glastonbury, SXSW, Midem, Spot festival og LA musexpo.
Hafdís Huld er nú að hefja upptökur á sinni þriðju sólóplötu og stefnt er að því að platan komi út um allan heim nú í haust. Eins hefur hún verið að taka upp plötu með íslenskum vögguvísum sem kemur út á vormánuðum.
Hafdís Huld og gítarleikarinn Alisdair Wright ætla að frumflytja nýtt efni af væntanlegum plötum á tónleikum sínum á Gljúfrasteini.
Tónleikarnir hefjast klukkan 21 og eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.
Aðgangur að Gljúfrasteini á Safnanótt, föstudaginn 10. febrúar og laugardaginn 11. febrúar er ókeypis. Gljúfrasteinn tekur þátt í Safnanæturleiknum þar sem í boði eru veglegir vinningar.
Hér má sjá myndband af tónleikum KK en hann spilaði fyrir gesti Gljúfrasteins á Safnanótt 2010.