Hafdís Huld tónlistarkona og gítarleikarinn Alisdair Wright koma fram á næstu stofutónleikum Gljúfrasteins sunnudaginn 13. júlí. Þau munu flytja efni af nýjustu sólóplötu Hafdísar sem nefnist Home í bland við efni af eldri plötum Hafdísar.
Hafdís Huld hóf tónlistarferil sinn ung að árum með tónlistarhópnum Gus Gus og gerði með honum tvær plötur. Árið 2006 útskrifaðist hún úr tónlistarnámi frá The London Centre of Contemporary Music í Bretlandi og síðan þá hefur hún einbeitt sér alfarið að sólóferli sínum. Það sama ár kom út hennar fyrsta sólóplata Dirty Paper Cup og þar á eftir Synchronised Swimmers árið 2009. Einnig hefur hún gefið út tvær barnaplötur, Englar í ullarsokkum og Vögguvísur. Þriðja og nýjasta plata hennar ber nafnið Home og er gefinn út undir merkjum plötufyrirtækisins Reveal Records í Evrópu og OK!Good í Bandaríkjunum. Platan fjallar að miklu leyti um lífið í Mosfellsdalnum og upplifun Hafdísar Huldar af því að flytjast heim til Íslands. Hafdís Huld hefur víða komið fram þar á meðal á mörgum af stærstu tónleikahátíðum heims en nú er hún sest að í Mosfellsdalnum og því vel við hæfi að hlýða á tónlist hennar í stofu Gljúfrasteins.
Stofutónleikarnir eru haldnir hvern sunnudag frá 1. júní til 31. ágúst og hefjast þeir klukkan 16:00. Miðaverð er 1500 krónur.