Gyrðir Elíasson hlaut Íslensku þýðingaverðlaunin 2012

23/04 2012

Kristján Kristjánsson útgefandi hjá Uppheimum, Gyrðir Elíasson og Katrín Jakobsdóttir

Gyrðir Elíasson hlýtur Íslensku þýðingaverðlaunin 2012, sem Bandalag þýðenda og túlka veitir, fyrir bókina Tunglið braust inn í húsið. Bókaútgáfan Uppheimar gefur út. Um verðlaunaverkið segir svo í umsögn dómnefndar:

"Gyrðir Elíasson fær þýðingarverlaun Bandalags þýðenda og túlka árið 2012 fyrir ljóðasafnið Tunglið braust inn í húsið, útgefandi Uppheimar.

Með því að velja þessa bók: Tunglið braust inn í húsið viljum við verðlauna ljóðlist heimsins, gömul ljóð og nýrri - og það að þeim hafi nú verið beint inn í húsið okkar - okkur gefið tækifæri til að lifa með þeim og njóta. Þýðingar Gyrðis á ljóðum ýmissa höfunda frá mörgum löndum og ólíkum tímum eru mikill hvalreki í sjálfu sér, en þarna opnast jafnframt nýjar víddir. Hér er á ferðinni mjög persónulegur lestur þýðandans sem aflar sér fanga og fer vítt. Hér sýnir sig líka ný sköpunarleið sem skáldið fetar. Verkið er samsett úr mörgum gjörólíkum þáttum - og það sem sameinar þessa þætti er tungutak skálds á Íslandi.

Með þessu þýðingarþrekvirki  bætir Gyrðir enn einu blómstrinu í sinn verkasveig þar sem þýðingar skipa veigamikinn sess. Líklega hefur enginn íslenskur rithöfundur verið jafnafkastamikill í þýðingum og Gyrðir. Skyldi það hafa eflt skáldskap hans? Örugglega hefur það gefið okkur lesendum fjölbreyttari flóru bókmennta á góðri íslensku. Fyrst og fremst er bókin Tunglið braust inn í húsið aðgengileg ljóðabók, fallegir textar með frumlegu íslensku orðfæri, nýjum myndum sem opna nýja sýn og skerpa hugsun. Hér býður einn okkar fremstu rithöfunda íslenskum ljóðaunnendum til samsætis með 36 skáldsystkinum frá fimmtán löndum. Þetta er eiguleg bók og falleg og hún ætti alls staðar að vera uppi við.  Til hamingju Gyrðir, til hamingju bókaútgáfan Uppheimar."

Í dómnefnd sátu þau Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, formaður, Jórunn Sigurðardóttir og Ólöf Pétursdóttir. Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn á Gljúfrasteini.