Verðlaunin hlaut Guðrún fyrir þýðingu sína á skáldsögunni Dyrnar eftir ungversku skáldkonuna Magda Szabó en Dimma gaf bókina út í fyrra. Það var Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands sem afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn í stofunni á Gljúfrasteini um helgina. Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars að Guðrún hafi þýtt bókina á einstaklega blæbrigðaríkt og kjarnyrt mál svo ætla mætti að sagan hefði verið skrifuð á íslensku.
Í dómnefnd voru Elísabet Gunnarsdóttir, Guðrún H. Tulinius og Þórður Helgason. Alls bárust nefndinni 86 bækur frá tuttugu og einni útgáfu og voru sjö þeirra tilnefndar í desember síðastliðnum. Að Íslensku þýðingaverðlaununum standa Bandalag þýðenda og túlka, Rithöfundasamband Íslands og Félag íslenskra bókaútgefanda. Tilgangur verðlaunanna er að vekja athygli á ómetanlegu framlagi þýðenda til íslenskrar menningar.