Guðrún Hannesdóttir hlaut Íslensku þýðingaverðlaunin 2021

23/02 2021

Guðrún C. Emilsdóttir formaður Bandalags þýðenda og túlka, Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Guðrún Hannesdóttir verðlaunahafi Íslensku þýðingaverðlaunanna og Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson frá útgáfunni Dimmu

Verðlaunin hlaut Guðrún fyrir þýðingu sína á skáldsögunni Dyrnar eftir ungversku skáldkonuna Magda Szabó en Dimma gaf bókina út í fyrra.  Það var Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands sem afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn í stofunni á Gljúfrasteini um helgina. Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars að Guðrún hafi þýtt bókina á einstaklega blæbrigðaríkt og kjarnyrt mál svo ætla mætti að sagan hefði verið skrifuð á íslensku.  

Í dómnefnd voru Elísabet Gunnarsdóttir, Guðrún H. Tulinius og Þórður Helgason. Alls bárust nefndinni 86 bækur frá tuttugu og einni útgáfu og voru sjö þeirra tilnefndar í desember síðastliðnum. Að Íslensku þýðingaverðlaununum standa Bandalag þýðenda og túlka, Rithöfundasamband Íslands og Félag íslenskra bókaútgefanda. Tilgangur verðlaunanna er að vekja athygli á ómetanlegu framlagi þýðenda til íslenskrar menningar.